*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 7. apríl 2017 16:44

Breytt verkaskipting

Breytt skipulag verður varðandi verkaskiptingu milli forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins er lúta að framkvæmd laga um Seðlabankann.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Forseti Íslands staðfesti í dag tillögur forsætisráðherra um breytt skipulag varðandi verkaskiptingu milli forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins er lúta að framkvæmd laga um Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Breytingarnar fela í sér að setning reglna um reikningsskil og ársreikning bankans verður á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem og samskipti við bankann í tengslum við ákvörðun hagnaðar og samkomulags um framkvæmd innköllunar. Þá mun ráðuneytið jafnframt fara með tilgreint hlutverk samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögum og skipa í sjóðráð AGS. Önnur ákvæði laganna verða sem fyrr á ábyrgðarsviði forsætisráðuneytisins.

Átta ráðuneyti í stað tíu

Forseti Íslands hefur jafnframt staðfest tillögu forsætisráðherra um breytt skipulag Stjórnarráðs Íslands. Breytingarnar fela í sér að í stað innanríkisráðuneytis komi annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti, en með því fjölgar ráðuneytum úr átta í níu. Nýju ráðuneytin taka til starfa 1. maí næstkomandi.

„Samkvæmt tillögunum munu málefnasvið hinna nýju ráðuneyta verða tilgreind með sama hætti og störfum er nú skipt með dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að því undanskildu að málefni Þjóðskrá Íslands og Yfirfasteignamatsnefndar, munu eftir breytinguna tilheyra samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,“ segir í tilkynningunni.