Síminn tilkynnti í dag um skipulagsbreytingar í starfsemi sinni sem ætlað er að endurspegla eflda þjónustustarfsemi fyrirtækisins. Meðal breytinga verður sameining tæknilegs rekstur talsíma-, farsíma- og gagnasviðs undir einn hatt. Einnig verður endursölunet Símans stóreflt á landsvísu og Penninn verður í kjölfarið eini endursöluaðili Símans.

Samstarfaðilar Símans munu taka við verslunarrekstri á Sauðárkróki, Selfossi, Akranesi, í Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ. Síminn mun áfram reka verslanir á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Á höfuðborgarsvæðinu verða verslanir Símans framvegis í Ármúla, Kringlunni og Smáralind. Hins vegar er áformað að loka verslun Símans á Laugavegi.

Í tilkynningu Símans segir að nauðsynlegt sé fyrir fyrirtæki í hröðu samkeppnisumhverfi að huga sífellt að breyttum áherslum í rekstri. Samfara umtalsverðum samgöngubótum síðastliðin ár og eftir að netið hefur fest sig í sessi hafa orðið miklar breytingar á starfsemi Símans. Vefverslun hefur t.d. aukist sem og þær kröfur sem fólk gerir til þjónustu sem hægt er að sækja á veraldarvefnum. Þessi þróun hefur haft í för með sér að fjöldi starfsmanna hefur verið þjálfaður til nýrra starfa og þörfin fyrir rekstur hefðbundina starfsstöðva um allt land hefur minnkað.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, segir nýtt skipulag og áherslubreytingar styrkja samkeppnisstöðu Símans á hörðum markaði og með því að nýta að fullu tækniframfarir og breytt vinnubrögð getur Síminn veitt þjónustuna með öðrum og hagkvæmari hætti en áður.