Fjárfestingabankinn Askar Capital hefur sem kunnugt er sagt upp um 1/3 starfmanna sinna eða 16 manns.

Að sögn Benedikts Árnasonar, forstjóra Askar var starfsmönnunum sagt upp fyrir helgi.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Benedikt að uppsagnirnar nú séu hluti af aðhaldsáætlun bankans frá því í sumar.

„Við erum búnir að vera að hagræða í rekstri og draga úr umfangi starfsseminnar,“ segir Benedikt.

Hann segir að sökum þeirra erfiðleika sem nú herja á alþjóða fjármálakerfið muni Askar Capital breyta áherslum sínum með breyttri fjármálaþjónustu.

Benedikt segir að líkast til muni ráðgjafaverkefnum bankans fjölga á næstunni, svo sem milliliðaverkefnum um lánaviðskipti en að sama skapi verið dregið úr verkefnum á eignastýringasviði.

Hjá Askar Capital starfa nú um 30 manns eftir uppsagnirnar. Þá starfa um 25 manns hjá Avant, sem er dótturfélag Askar.