Alþjóðlega fjarskiptafyrirtækið Vodafone hefur gefið til kynna að það muni á næstu mánuðum taka upp nýjar aðferðir til að snúa vörn í sókn og auka hagnað þess en fyrirtækið hefur gengið í gegnum talsverða rekstrarerfiðleika undanfarna mánuði.

Talsmenn Vodafone tilkynntu í bæði nóvember og febrúar að hagnaður ársins 2005 yrði minni en áður var búist við vegna vaxandi samkeppni í fjarskiptaiðnaðinum. Á fimmtudaginn verður afkoman kynnt formlega en búist er við að hagnaður muni dragast verulega saman og að afkoman verði sú versta í sögu félagsins. Samhliða tilkynningu um afkomu verða nýjar áherslur Vodafone kynntar.

Vodafone hyggst á næstu misserum einbeita sér að hagræðingu og endurskipulagningu innan fyrirtækisins til að ná fram auknum hagnaði.Sérstaklega mun Vodafone reyna að auka notkun á farsímum en hagnaður af farsímaþjónustu Vodafone hefur verið mun minni en spár fyrirtækisins gerðu ráð fyrir. Vodafone vonast til þess að geta aukið farsímanotkun Evrópubúa með því að bjóða farsímanotendum upp á aukin fríðindi og ódýrari gjöld. Einnig hyggst Vodafone ná fram hagræðingu með því að flytja hluta starfseminnar til landa þar sem launakostnaður og gjöld eru lægri.

Undanfarin ár hefur Vodafone yfirtekið fjölda farskiptafyrirtækja á nýjum mörkuðum á borð við Tékkland, Tyrkland og Rúmeníu, auk þess að yfirtaka rótgróin fyrirtæki í t.d. Þýskalandi. Talsmenn Vodafone segja að nú sé yfirtökutíð fyrirtækisins lokið í bili og að á næstu mánuðum verður stefnan sett á að auka hlut Vodafone í fyrirtækjum sem félagið á þegar hlut í. Búist er við að Vodafone muni í kjölfarið auka við hlut sinn í indverska fjarskiptafyrirtækinu Bharti sem er stærsta fjarskiptafyrirtæki Indlands en Vodafone á 10% hlut í fyrirtækinu.