Smásölusamstæðan Hagar hagnaðist um ríflega 2,5 milljarða króna á síðasta rekstrarári, sem nær yfir tímabilið 1. mars 2020 til 28. febrúar 2021. Dróst hagnaðurinn saman um tæplega hálfan milljarð frá fyrra rekstrarári. Velta samstæðunnar nam tæplega 120 milljörðum króna og nam framlegð 26,5 milljörðum króna. Árið áður velti samstæðan ríflega 116 milljörðum og framlegð nam nærri 26 milljörðum króna. Undir hatti Haga eru matvöruverslunarkeðjurnar Bónus og Hagkaup ásamt Olíuverzlun Íslands ehf. (Olís). Einnig reka Hagar innkaupa-  og dreifingarmiðstöðina Aðföng og Banana sem er stærsti innflytjandi á ávöxtum og grænmeti á Íslandi. Hagar reka einnig tískuvöruverslunina Zöru og hreinlætisvöruframleiðandann Mjöll Frigg.

„Verslun á Íslandi, og þar á meðal hjá Hagkaup, gekk almennt séð mjög vel í fyrra. Þegar landið nánast lokar vegna heimsfaraldursins eykur það sókn í innlenda verslun og við nutum góðs af því," segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups. „Að sama skapi fundum við fyrir því að fólk var svolítið að endurupplifa Hagkaup en síðustu ár höfum við verið að endurgera búðirnar okkar og teljum okkur hafa náð að setja upp spennandi búðir. Við urðum vör við að viðskiptavinir sem höfðu ekki gert sér ferð í búðirnar okkar um langa hríð voru mjög glaðir með þær áherslubreytingar sem hafa átt sér stað."

Breytingarnar sem Sigurður vísar til fólu í sér að Hagkaup ákvað að minnka áherslu á fatasölu og öðrum tengdum vörum og leggja aukið púður í sölu leikfanga og snyrtivara. Sigurður segir sölu snyrtivara einmitt hafa tekið mikinn kipp í heimsfaraldrinum, þar sem ferðalög nánast lögðust af og viðskiptavinir gátu því ekki keypt snyrtivörur erlendis.

Stytta viðskiptavinum sporin í eldhúsinu

Matarmegin snúist áherslur Hagkaups mest um að skapa ákveðna upplifun og gefa fólki kost á að upplifa nýjar og spennandi vörur. „Við leggjum upp með að þegar fólk stígur inn í búðirnar okkar sé það að labba inn í ákveðinn ævintýraheim þar sem það hefur aðgang að meira úrvali og fleiri spennandi valkostum en í öðrum verslunum," segir Sigurður.

Síðustu ár hafi Hagkaup að sama skapi lagt áherslu á lausnir sem stytti viðskiptavinum sporin við matargerð. „Áherslur landsmanna hafa breyst á þann veg að þeir vilja nú eyða færri mínútum í eldhúsinu en áður. Því ákváðum við að hefja sölu á tilbúnum vörum sem tekur stutta stund að matreiða. Við höfum í samstarfi við birgja framleitt fjöldann allan af vörum sem auðvelda viðskiptavinum eldamennskuna eins og t.d. forsoðinn hamborgarahrygg, foreldaða vegansteik, tilbúið sushi, salöt, sósur, eldgrillaðan kjúkling og svona mætti lengi telja. Með breyttu samfélagsmynstri sjáum við einnig að neytendur eru að biðja um fjölbreyttara vöruúrval til að mæta auknum fjölbreytileika í mataræði. Gríðarleg aukning hefur orðið í grænkeravörum hjá okkur sem og á Ketóvörum."

Krefjandi rekstur í Covid

Sigurður segir það hafa verið mjög stóra áskorun að vera í verslunarrekstri í heimsfaraldri. „Við þurftum að aðlagast breyttum reglum mjög fljótt og gátum lítið skipulagt okkur fram í tímann þar sem við máttum stundum hleypa inn 100, stundum 200 og stundum 300 viðskiptavinum inn í búðina í einu, auk þess sem allur gangur var á því hvort grímuskylda væri eða ekki." Á þessum miklu óvissutímum hafi verið magnað að sjá hve mikilli aðlögunarhæfni starfsfólk Hagkaups búi yfir. „Það gleymist oft að verslunarfólk var í hálfgerðri framvarðasveit án þess þó að vera skilgreint sem slíkt. Á heimsvísu hafa tvær gerðir verslana aldrei lokað í faraldrinum; apótek og matvöruverslanir. Starfsmenn verslana voru því í fremstu víglínu og mér finnst aðdáunarvert að það hefur aldrei verið neinn bilbug að finna á starfsfólkinu okkar í gegnum þessa krefjandi tíma.

Eitt af því sem var að valda okkur hvað mestu rekstrarlegum áskorunum var að lítið tillit var tekið til fermetrafjölda verslana í samkomutakmarkanareglugerðum. Það var til að mynda sérstakt að verslanir Hagkaupa sem flestar eru nokkur þúsund fermetrar að stærð hafi einungis mátt taka á móti t.d. 200 manns á sama tíma og verslanir með mun minni fermetrafjölda fengu að taka á móti sama fjölda. Það er margt sem má læra af aðgerðum á síðasta ári og mögulega gera betur en síbreytilegar aðstæður hafa þjálfað okkur í að bregðast hratt við á samstilltan og samheldinn máta, ávallt með öryggi viðskiptavina okkar og starfsmanna að leiðarljósi."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .