Áfengi mun færast í neðra þrep virðisaukaskatts samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi, en samhliða því verða áfengisgjöld hækkuð á móti svo breytingin hafi ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs af áfengissölu. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að þessar breytingar komi illa við innlenda áfengisframleiðendur. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

„Þetta bitnar mjög hart á áfengis- og bjórframleiðendum og verður mjög íþyngjandi fyrir þessa aðila vegna þess að greiðslufrestur og greiðsluskilmálar áfengisgjalds eru miklu harðari og þar að leiðandi þýðir þessi breyting það að þetta verður allt þyngra í vöfum,“ segir hann.

Almar bendir á að áfengisgjald sé gert upp á tveggja vikna fresti en virðisaukaskattur á tveggja mánaða fresti. Þetta skapi aukna hættu á að áfengisframleiðendur tapi fé verði veitingastaðir eða barir gjaldþrota.

Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda, segir í samtali við Fréttablaðið að breytingarnar séu ekki til þess fallnar að létta henni reksturinn. Hún tekur undir áhyggjur Almars og vill að kerfið verði einfaldað svo hægt verði að gera upp virðisaukaskatt, áfengisgjald og skilagjald samtímis en ekki þrennu lagi.