*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 17. janúar 2016 13:40

Breyttir staðlar munu lækka eiginfjárhlutfall Icelandair

Fjármálastjóri Icelandair segir breytingar á reikningsskilastöðlum í raun jákvæðar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Breytingar á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum munu að óbreyttu lækka eiginfjárhlutfall Icelandair Group. Breytingarnar hafa þó engin áhrif á raunverulega eiginfjárstöðu fyrirtækisins eða á rekstur þess.

„Þetta er í raun jákvæð breyting sem mun auðvelda fólki að sjá raunverulega stöðu fyrirtækja,“ segir Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair Group. Skuldbindingar Icelandair utan efnahagsreiknings eru nú metnar á um 476 milljónir dala, andvirði um 62 milljarða króna. Þessi fjárhæð mun ekki færast óbreytt inn í efnahagsreikning fyrirtækisins, því núvirða verður leigusamningana áður en það er gert. Gróflega áætlað mun efnahagsreikningur Icelandair, bæði eigna- og skuldamegin, stækka sem þessu nemur.

„Við höfum lengi vitað að að þessu stefndi og höfum hagað okkar málum í samræmi við það. Við erum ólík mörgum öðrum flugfélögum að því leyti að stærstur hluti þessara skuldbindinga er vegna leigu hótelanna á fasteignum, en við eigum sjálf flestar okkar flugvéla.“

Ef gert er ráð fyrir því að efnahagsreikningur Icelandair Group stækki sem nemur þeirri fjárhæð sem hér er nefnd mun eiginfjárhlutfall Icelandair lækka úr 46,4% í 31,6%, en Bogi segir að undirliggjandi rekstur fyrirtækisins breytist ekkert við þetta. „Sjóðstreymið er óbreytt og geta okkar til að standa við skuldbindingar er það sömuleiðis.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.