Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur skilað umsögn sinni um hæfni umsækjenda í tvö laus embætti í Hæstarétti. Niðurstaða nefndarinnar er sú að öll sex sem eftir stóðu sé jafnhæf til að hreppa hnossið.

Umsækjendur um stöðuna voru landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð Þór Björgvinsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Þorgeir Ingi Njálsson og prófessorarnir Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen. Þær tvær síðastnefndu hafa einnig verið settir dómarar við Landsrétt það sem af er ári. Þau Aðalsteinn, Davíð, Oddný og Þorgeir hafa öll setið sem dómarar í Landsrétti frá því að hann var skipaður á einu bretti en reynsla Ásu og Bjargar af dómstörfum er minni.

Auk þeirra sóttu Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður, um embættin. Jóhannes dró umsókn sína til baka um miðjan september en Ástríður dró sína til baka skömmu eftir að umsögn dómnefndarinnar hafði verið send umsækjendum.

Í álitinu er þess getið að það hafi verið sent umsækjendum til umsagnar um miðjan síðasta mánuð. Umsagnir bárust við það frá Ásu og Björgu en í kjölfar þeirra var matinu breytt að því leyti að matsþátturinn „færni umsækjenda til að semja dóma“ breyttist sem og niðurstaða nefndarinnar.

Í kjölfarið voru drög að áliti send öðru sinni og bárust þá umsagnir frá öllum umsækjendunum sex sem eftir stóðu. Þau andmæli gáfu tilefni til lítilsháttar orðalagsbreytinga en breyttu ekki niðurstöðunni.

Stöðurnar tvær voru auglýstar í júlí en ekki tókst að manna dómnefndina fyrr en í lok ágúst þar sem fjórir af fimm föstum nefndarmönnum lýstu yfir vanhæfi sínu. Nefndin hefur vanalega sex vikur til að skila af sér en sá frestur rann sitt skeið um miðjan síðasta mánuð. Nefndina nú skipuðu þau Áslaug Árnadóttir formaður, Andri Árnason, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Halldór Halldórsson og Helga Melkorta Óttarsdóttir. Helga Melkorka er sú eina sem á fast sæti í nefndinni.