*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 29. maí 2018 10:03

Breyttur afgreiðslutími úti á landi

Afgreiðslutími styttur í þrjá tíma í 11 útibúum, að því er segir vegna fækkandi heimsókna í útibúin.

Ritstjórn
Landsbankinn ætlar að stytta afgreiðslutíma 11 útibú, þar á meðal útibúsins á Skagaströnd.
Haraldur Guðjónsson

Í júní breytist afgreiðslutími í hluta af útibúum Landsbankans. Þau 11 útibú sem þessar breytingar ná til eru öll staðsett á landsbyggðinni. Auk þess verða samhliða því gerðar breytingar á útibúi bankans við Hagatorg í Vesturbæ Reykjavík.

Samkvæmt tilkynningu frá Landsbankanum munu þessar breytingar aðlaga útibúin að breyttum aðstæðum í bankaþjónustu. Viðskiptavinir eru í auknum mæli farnir að nýta sér stafrænar lausnir til að sinna bankaviðskiptum og hefur heimsóknum þeirra í útibú fækkað.

Hér má sjá hvaða útibú stytta afgreiðslutíma sinn, gamla afgreiðslutímann og þann nýja:

 • Breiðdalsvík    12.30-16.00    12.00-15.00
 • Djúpivogur    11.00-16.00    12.00-15.00
 • Hvammstangi    9.00-16.00    12.00-15.00
 • Kópasker    12.00-16.00    12.00-15.00
 • Neskaupstaður    9.00-16.00    12.00-15.00
 • Patreksfjörður    9.00-16.00    12.00-15.00
 • Raufarhöfn    12.00-15.30    12.00-15.00
 • Skagaströnd    9.00-16.00    12.00-15.00
 • Vopnafjörður    12.30-16.00    12.00-15.00
 • Þorlákshöfn    9.00-16.00    12.00-15.00
 • Þórshöfn    12.30-16.00    12.00-15.00

Landsbankinn hefur á undanförnum mánuðum kynnt fjölmargar nýjar stafrænar þjónustuleiðir. Meðal annars geta viðskiptavinir stillt sjálfir yfirdráttinn í netbankanum og lokið greiðslumati vegna íbúðalána á netinu. Að sögn Landsbankans verða svo fleiri nýjungar kynntar til sögunnar á næstunni.

Þessar breytingar munu koma til framkvæmda á tímabilinu 11.-29. júní og nánari upplýsingar verða aðgengilegar í viðkomandi útibúi eða afgreiðslu. Hægt er að nálgast lista yfir þau útibú sem munu taka upp breytta afgreiðslutíma á vef Landsbankans.

Samhliða breyttum afgreiðslutíma verður útibú bankans við Hagatorg gert að afgreiðslu frá útibúinu við Austurstræti 11. Bakvinnslustörf í útibúinu við Hagatorg verða lögð niður og bakvinnslustörfum í höfuðstöðvum bankans fækkar. Starfsfólki í útibúinu við Hagatorg mun fækka en samkvæmt tilkynningunni ættu viðskiptavinir ekki að verða varir við miklar breytingar á þjónustu.