Ef lífskjör á Íslandi eiga að vera sambærileg við önnur lönd verðum við að vera með menntakerfi sem skilar árangri í það minnsta jafn vel og aðrir. Þetta kom fram í máli Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra á fundi Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem nú stendur yfir á Grand hótel. Hann sagði að ef engar breytingar verða gerðar á menntakerfinu sé það ákvörðun um að ætla að hafa þessa hluti óbreytta.

Þá sagði Illugi frá því að vinna stendur nú yfir í menntamálaráðuneytinu við að greina tölfræði, strauma og stefnur sem snúa að háskólastiginu hér á landi. Búist er við því að starfshópur ráðuneytisins skili niðurstöðum sínum rétt fyrir eða eftir áramót.

Illugi sagðist ætlast til þess að niðurstöður starfshópsins muni leggja góðan grunn að umræðu um háskólastigið á Íslandi. Hann telur háskóla of marga og vill lyfta Íslandi úr því að vera fyrir neðan meðaltal OECD-ríkjanna í menntamálum. "Til þess þurfum við að vera tilbúin til að horfa á kerfið í heild," sagði Illugi. Hann sagði eðlilegt að þegar til stæði að gera breytingar á eins stóru kerfi og menntakerfinu sköpuðust um það umræður.