Ríkin fimm sem tilheyra BRICS samtökunum svokölluðu vilja draga úr áhrifum dollarsins á alþjóðamarkaði og að völd ríkjanna aukist innan alþjóðlegra fjármálastofnanna. Í BRICS eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka, sem gerðist meðlimur á þessu ári. Ríkin teljast til nýmarkaðsríkja og eiga það sameiginlegt að hafa búið við mikinn hagvöxt á allra síðustu áratugum.

Leiðtogar ríkjanna funduðu í Kína í dag og fjallað er um niðurstöður fundarins á vef Reuters. Löndin kalla einnig eftir hertara regluverki á hrávörumarkaði, til þess að draga úr óstöðugleika á markaði matar og orkugjafa.

Í sameiginlegri yfirlýsingu segja ríkin að þörf sé á víðtæku alþjóðlegu gjaldmiðlakerfi sem veiti öryggi og stöðugleika. Ríkin telja að núverandi kerfi, með Bandaríkjadollar í broddi fylkingar, sé ekki nægilega gott og ógni stöðugleika. Ríkin eru hrædd um að neikvæður viðskiptajöfnuður og halli á ríkisfjármálum i Bandaríkjunum muni á endanum rýra virði dollarsins.