Stjórnendur breska verðbréfafyrirtækisins Bridgewell hyggjast velja tvo til þrjá hugsanlega kaupendur að félaginu fyrir lok vikunnar, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins, og Landsbanki Íslands er líklegur til að vera á meðal þeirra.

Viðskiptablaðið greindi frá því á þriðjudaginn að íslenski bankinn væri á meðal þeirra sem sem væru að skoða Bridgewell og þann sama dag sagði Financial Times að forstjóri Bridgewell, Jim Renwick, hefði flogið til Íslands til að hitta stjórnendur Landsbankans. Bankinn og Bridgewell hafa hinsvegar neitað að tjá sig um söluferlið.

Kanadíska verðbréfafyrirtækið Canaccord, hollenski bankinn Rabobank og belgíski bankinn Fortis Banque hafa einnig verið nefndir sem hugsanlegir kaupendur að Bridgewell, sem hefur ákveðið að leita kaupenda í kjölfar afkomu undir væntingum. Sérfræðingar telja Landsbankann og Canaccord líklegustu kaupendurnar.

"Canaccord er enn í uppáhaldi greiningaraðila - þar eru samlegðaráhrifin augljós - en líklegt er að banki eins og Landsbankinn sé tilbúinn til að greiða hærra verð," segir Jeremy Grime, sérfræðingur hjá Altium Securities í London.

Landsbanki Íslands keypti verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood árið 2005 og keypti einnig meirihluta í evrópska verðbréfafyrirtækinu Kepler Equities og írska verðbréfafyrirtækinu Merrion Capital. Íslensku bankarnir tóku ekki þátt í stórum yfirtökum í fyrra og segja sérfræðingar að ástæðuna megi rekja til umróts á fjámálamarkaði í fyrra í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar erlendra greiningaraðila um íslensku bankana.

Innlendir og erlendir greiningaraðilar benda hins vegar á að bankarnir hafi svarað gagnrýninni í orði og verki og búast við yfirtökum á árinu. Glitnir hefur þegar ráðist í eina yfirtöku, en bankinn hefur samþykkt að kaupa finnska fjármálafyrirtækið FIM Group fyrir um 30 milljarða króna.

Kaupþing hefur einnig verið að auka hlut sinn jafnt og þétt í norska fjármálaþjónustufyrirtækinu Storebrand. Bankinn og tengdir aðilar eiga nú í kringum 16% hlut í félaginu. Sérfræðingar í Noregi útiloka ekki kauptilboð frá Kaupþingi í Storebrand en talsmenn bankans hafa ekki viljað tjá sig um yfirtöku. Norska fjármálaeftirlitið telur það óráðlegt að Kaupþing fái að kaupa meira en 20% í Storebrand.