Brim hefur eignast hlut í Arctic Prime Fisheries ApS (APF) en fjárfestingin er samtals um 85 milljónir evra, eða um 13,3 milljarðar íslenskra króna, í formi hlutafjárkaupa, fjármögnunar og skipakaupa, segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Ákvörðunin var tekin í framhaldi af stofnun dótturfélags Brims í Grænlandi fyrr á árinu. Markmið fjárfestingarinnar er að breikka grundvöll starfsemi félagsins, efla samstarf við APF á Suður-Grænlandi um veiðar, þróun á hátæknivinnslu og nýta verðmæta reynslu Brims á sviði umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar.

APF er sjávarútvegsfyrirtæki, stofnað árið 2006, og stundar bæði veiðar og vinnslu á Suður- og Austur-Grænlandi. Aflaheimildir félagsins eru umtalsverðar eða um 10.000 tonn af botnfiski, mest í þorski, en einnig í karfa og grálúðu og um 18.000 tonn af uppsjávarfiski, mest í makríl, en einnig í síld. Ársverk hjá fyrirtækinu eru um 165 en félagið er einn stærsti atvinnuveitandi á Suður-Grænlandi í einkaeigu.

APF er í meirihlutaeigu grænlenskra aðila, Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem á 16,5% og hefur verið hluthafi í félaginu frá árinu 2013 og Brims, sem eftir viðskiptin mun eiga 16,5% hlut í félaginu.

„Við teljum það hagstætt og til þess fallið að auka verðmæti Brims, að taka þátt í því, ásamt Grænlendingum, að nýta þau tækifæri sem felast í þróun sjávarútvegs á Suður- og Austur-Grænlandi. Sú þekking og reynsla sem starfsfólk Brims og Arctic Prime Fisheries búa yfir er vel til þess fallin að auka og efla samstarf þessara nágranna- og vinaþjóða á sviði sjávarútvegs,” er haft eftir Kristján Þ. Davíðssyni, stjórnarformanni Brims.