Stjórn Brims hefur samþykkt 1,9 milljarða arðgreiðslur til hlutahafa félagsins á þessu ári, vegna rekstrarársins 2019, og verður arðurinn greiddur út 30. apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Brims .

Í fréttatilkynningunni segir jafnframt að síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum hafi verið 31. mars 2020 og arðleysisdagur sé því dagurinn í dag, 1. apríl 2020. Arðsréttindadagur sé svo á morgun, 2. apríl 2020. Arður greiðist því þeim sem skráðir séu í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.

Forstjórinn í stjórn

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, var kosinn í stjórn félagsins. Auk hans voru þau Anna G. Sverrisdóttir, Kristján Þ. Davíðsson, Kristrún Heimisdóttir og Magnús Gústafsson, kosin í stjórnina. Á fyrsta stjórnarfundi nýju stjórnarinnar var ákveðið að Kristján verði stjórnarformaður og verður Anna varaformaður.

Var það samþykkt á hluthafafundinum að þóknun til stjórnarmanna verði 300 þúsund krónur á mánuði. Varaformaður mun fá einn og hálfan hlut og formaður tvöfaldan.