Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni eða um 4,6% í nærri 300 milljóna króna veltu. Félagið hefur nú hækkað um 13,5% frá 11. maí síðastliðnum eða um það leyti þegar útboð Síldarvinnslunnar fór fram. Brim birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Iceland Seafood hækkaði um 2% í dag og hefur nú hækkað um 7,3% frá því að félagið birti uppgjör eftir lokun markaða á mánudaginn. Hlutabréfagengi félagsins hefur aldrei verið hærra.

Mesta lækkunin var hjá Eik en gengi fasteignafélagsins lækkaði um hálft prósent í dag. Hin tvö fasteignafélögin í Kauphöllinni, Reginn og Reitir, hækkuðu þó bæði um rúmlega 1%.