Útgerðarfélagið Brim hagnaðist um 79,3 milljónir evra árið 2022, eða um 11,3 milljörðum króna á meðalgengi ársins, samanborið við 75,2 milljónir evra árið 2021. Stjórn Brims leggur til að greiddir verði út 5,4 milljarðar króna í arð vegna síðasta rekstrarárs, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Tekjur félagsins jukust um 16% á milli ára og námu 451 milljón evra eða um 64,2 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður Brims fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 26% á milli ára og nam 117,7 milljónum evra, eða um 16,8 milljörðum króna.

Þróun hagnaðar Brims á árunum 2014-2022. Mynd tekin úr fjárfestakynningu félagsins.
Þróun hagnaðar Brims á árunum 2014-2022. Mynd tekin úr fjárfestakynningu félagsins.

„Rekstur Brims var góður árið 2022. Loðnuveiðar gengu vel og veiddist mikið magn. Af bolfiski var veitt 8 þúsund tonnum minna en árið áður. Erlendir markaðir fyrir sjávarafurðir Brims voru hagstæðir, verð góð og gekk sala á afurðum vel,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.

„Brim hefur haldið áfram að fjárfesta eftir stefnu sem var mörkuð árið 2018, þ.e. að fjárfesta í veiðiheimildum, skipum, tækni og búnaði, og markaðs og sölustarfi.

Í dag er óvissa. Í Evrópu er stríð og verðbólga og vinnudeilur eru hér á Íslandi og undirbúningur er í gangi að nýjum lögum um stjórn fiskveiða. Brim mun því fara varlega í öllum mikilvægum ákvörðunum á næstu mánuðum.“

Heildareignir Brims námu 942,9 milljónum evra, eða um 142,8 milljörðum króna, í árslok 2022. Eigið fé nam 452,3 milljónum evra, eða um 68,5 milljörðum króna, og var eiginfjárhlutfall 48,0%.

Heildareignir Brims námu 942,9 milljónum evra, eða um 142,8 milljörðum króna, í árslok 2022. Eigið fé nam 452,3 milljónum evra, eða um 68,5 milljörðum króna, og var eiginfjárhlutfall 48,0%.