Útgerðarfélagið Brim hf. hagnaðist um 756,8 milljónir króna árið 2013 samkvæmt ársreikningi félagsins en rekstrartekjur félagsins á sama tíma námu um 8,8 milljörðum króna. Er þetta töluvert minni hagnaður en árið áður þegar hann nam um 3,7 milljörðum króna. Mesta breytingin á milli ára er 2,6 milljarða gengismunur vegna leiðréttinga á lánum árið 2012 en hann útskýrir að mestu muninn á afkomu félagsins á milli ára. Á árinu var arður greiddur til hluthafa að upphæð 750 milljónir króna.