*

fimmtudagur, 29. október 2020
Innlent 20. ágúst 2020 18:17

Brim hagnast um 817 milljónir

Heildareignir Brims námu 122 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall félagsins var 42,1% í lok annars ársfjórðungs.

Ritstjórn
Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Brims nam 5 milljónum evra, eða um 817 milljónir króna, á öðrum fjórðungi ársins. Hagnaður útgerðarfélagsins nam 6,8 milljónum evra á sama tíma í fyrra. 

Rekstrartekjur samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi voru 60,3 milljónir evra, sem er 21,6% aukning frá fyrra ári. Félagið rekur aukningu tekna fyrst og fremst til sölufélaga í Asíu sem komu inn í samstæðureikningsskil þess í byrjun október síðastliðnum. Rekstrartekjur sölufélaganna, að teknu tilliti til innbyrðis viðskipta námu 25 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi.

Fiskvinnslan Kambur ehf., Grábrók ehf. og Grunnur ehf. eru hluti af samstæðunni frá og með 1. maí síðastliðnum. Dótturfélagið Norðanfiskur var selt í júlí, og hefur rekstur og efnahagur þess félags verið færður undir aflagða starfsemi.

Heildareignir félagsins námu 749 milljónum evra, eða 122 milljörðum króna í lok júní. Eigið fé nam 316 milljónir evra, eiginfjárhlutfall í lok júní var 42,1%, en var 45,3% í lok árs 2019. Heildarskuldir félagsins í júnílok voru 433 milljónir evra.

Í lok júní gerði samstæðan út 10 fiskiskip, en línubátarnir Kristján HF-100 og Steinunn HF-108 bættust við þegar Grunnur og Grábrók urðu hluti af samstæðunni 1. maí síðastliðinn. Á fyrri árshelmingi ársins 2020 var afli skipa samstæðunnar 23,0 þúsund tonn af botnfiski og 34,0 þúsund tonn af uppsjávarfiski. 

„Ásættanleg niðurstaða“ í ljósi Covid

Í tilkynningu félagsins segir að áhrif veirufaraldursins COVID-19 á rekstur samstæðunnar hafa verið umtalsverð á tímabilinu. Félagið segir breytingar hafa orðið á mörkuðum víða um heim, með breyttu neyslumynstri matvara og margvíslegum efnahagslegum áhrifum. Til að mynda hafa veitingahús og mötuneyti á lykilmörkuðum samstæðunnar ýmist verið lokuð eða með skerta starfsemi og söluleiðir því aðrar en áður. 

Aukin sala hefur hins vegar verið á sjávarafurðum á öðrum mörkuðum, líkt og í smásöluverslunum. Flutningaleiðir, ekki síst í lofti, en einnig á sjó, hafa raskast og kostnaður aukist og einnig hefur framleiðslusamsetning breyst vegna framangreindra þátta.

„Erfiðar gæftir og minni veiði uppsjávarfisks, áhrif covid heimsfaraldursins á markaði og gagnger endurnýjun og tæknivæðing botnfiskvinnslu félagsins í Norðurgarði einkenndu rekstur á fyrri árshelmingi. Í ljósi framangreindra aðstæðna er niðurstaða uppgjörs Brims á fyrri árshelmingi ársins 2020 ásættanleg,“ er haft eftir Kristjáni Þ. Davíðssyni, stjórnarformanni Brims.

Stikkorð: Brim