Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,9% í 7,1 milljarðs veltu í Kauphöllinni í dag. Sextán af átján félögum aðalmarkaðar Nasdaq hækkuðu í viðskiptum dagsins.

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hækkaði um 2,6% í dag, mest allra fyrirtækja. Fjárfestar virðast því hafa tekið vel í árshlutauppgjörið sem félagið birti í gær þar sem fram koma að hagnaðurinn á fyrsta ársfjórðungi nam 1,7 milljörðum króna.

Hlutabréfagengi Brim hefur aldrei verið hærra en félagið hefur nú hækkað um 16,4% á síðustu tíu dögum. Markaðsvirði félagsins samkvæmt Keldunni er um 116 milljarðar króna.

Næst mesta hækkunin var hjá Festi sem hækkaði um tæp tvo prósent í dag. Gengi smásölufyrirtækisins hefur hækkað um 4% á síðustu þremur dögum. Fasteignafélögin þrjú, Reginn, Reitir og Eik, hækkuðu öll um meira en eitt prósent í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Marel sem hækkuðu um 0,3% í 1,6 milljarða króna viðskiptum í dag.