*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 26. nóvember 2019 19:50

Brim lækkaði mest utan bræðraviðskipta

Bréf Brim lækkað um 2,6%, í næstmestu skráðu viðskiptunum. Hálfri krónu ódýrari en kaupgengi bróður forstjórans.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,11%, upp í 2.068,72 stig, í 1,3 milljarða króna heildarviðskiptum í kauphöllinni í dag. Tíu félög eru í Úrvalsvísitölunni sjálfri, eða helmingur þeirra tuttugu félaga sem eru á aðallista kauphallarinnar. Þrjú félög eru svo til viðbótar á First North listanum, Hampiðjan, Klappir grænar lausnir og Sláturfélag Suðurlands.

Á aðallistanum hækkaði einungis gengi þriggja félaga í viðskiptum dagsins, þar af Sýnar sem er eina þeirra sem ekki er í Úrvalsvísitölunni, mest, eða um 1,06%, en þó ekki nema í 14 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins í 28,60 krónur. Gengi bréfa Símans hækkaði næst mest, eða um 0,98%, í 5,14 krónur, í 51 milljóna króna viðskiptum. 

Hækkun á gengi bréfa Marel var sú þriðja mesta í viðskiptum dagsins, eða um 0,50%, í 218 milljóna króna viðskiptum sem jafnframt voru þau mestu með eitt félag í kauphöllinni í dag. Fór gengi bréfanna í 606,00 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær fór gengi bréfa félagsins þá yfir 600 stiga í annað sinn, og hefur hækkun gengis bréfa félagsins á árinu numið nálega tveimur þriðju.

Brim viðskiptin ekki inn í viðskiptum dagsins

Næst mestu viðskiptin voru skráð með gengi bréfa Brim, eða fyrir 212 milljónir króna, og lækkaði það um 2,60%, niður í 37,50 krónur í viðskiptunum. Var það jafnframt mesta lækkunin á einu félagi í viðskiptum dagsins.

Eftir lokun markaða var tilkynnt um nærri 1,8 milljarða viðskipti með bréf félagsins á genginu 38 krónur, þar sem félag Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brim, fór niður fyrir 50% eignarhlut með sölu til félags í eigu bróður hans Hjálmars Þórs Kristjánssonar.

Gengi fimm félaga stóð í stað í viðskiptum dagsins, það er Iceland Seafood, Heimavalla, TM, Eimskipafélags Íslands og Icelandair.
Öll önnur félög lækkuðu í viðskiptum dagsins, þó það dygi ekki til að vega upp á móti hækkun Sýn og Símans. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Sjóvá, eða fyrir 1,28% í 74 milljóna króna viðskiptum, og fór það niður í 17,38 krónur.

Evran stóð í stað en hinar krónurnar styrktust

Gengi krónunnar styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum nema Norðurlandakrónunum þremur sem styrktust og evrunni sem stóð í stað í 134,95 króna kaupgengi. Sænska krónan styrktist mest, eða um 0,49%, upp í 12,773 krónu kaupgengi.

Breska sterlingspundið veiktist mest, eða um 0,39, og kostar það nú 157,40 krónur. Bandaríkjadalurinn veiktist um 0,07% gagnvart krónu og kostar nú 122,53 krónur.