*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 10. október 2019 12:41

Brim og Krónan leiðandi í umhverfismálum

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hlaut Umhverfisverðlaun atvinnulífsins og Krónan verðlaunuð fyrir framtak ársins.

Ritstjórn
Torfi Þ. Þorsteinsson, forstöðumaður samfélagstengsla Brims, Ragna Sara Jónsdóttir, formaður valnefndar Umhverfisverðlauna atvinnulífsins, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Ingólfur Steingrímsson, forstöðumað
Aðsend mynd

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í gær. Handhafi verðlaunanna í ár er sjávarútvegsfyrirtækið Brim og veitti Guðmundur Kristjánsson forstjóri félagsins verðlaununum viðtöku í Hörpu í gær þar sem Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn hátíðlegur. 

Einnig voru veit verðlaun fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála og hlaut verslunin Krónan viðurkenninguna í ár. 

Í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins segir að Brim hafi tekið umhverfismálin föstum tökum. Fyrirtækið leggi áherslu á samfélagsábyrgð og virðingu fyrir umhverfinu og hafi unnið að því að kortleggja áhrif og ábyrgð félagsins. Þá hafi Brim sett sér markmið og mælikvarða til að mæla árangur, draga úr sóun og auka verðmæti. Brim hafi dregið markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, fjárfest í nýrri tækni og skipum sem hafi skilað miklu.

„Við í Brimi erum þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Hún gerir okkur ánægð og stolt. Virðing fyrir náttúru hefur verið okkar leiðarljós og við sjáum að áhersla á umhverfismál og sjálfbærni skilar sér í aukinni arðsemi og miklum ábata fyrir samfélagið í heild. Við í Brimi ætlum að halda áfram á sömu braut. Umhverfisverðlaunin eru hvatning til að gera enn betur,“ sagði Guðmundur. 

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, tók við verðlaununum fyrir framtak ársins í umhverfismálum.  Í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins segir að Krónan hafi jákvæð áhrif á umhverfi sitt og sýni frumkvæði með nýjum verkefnum til að draga úr sóun og umhverfisáhrifum fyrirtækisins.

„Við hjá Krónunni erum mjög stolt af þessari viðurkenningu. Við erum svo lánsöm að vera með frábært starfsfólk sem er tilbúið að leggja heilmikið á sig til að innleiða breytingar í þágu umhverfisins. Það skiptir máli fyrir starfsandann að vera virkur þátttakandi í þessum mikilvægu breytingum sem umhverfið kallar svo sterkt á.  Viðskiptavinir okkar hafa sýnt það í verki að þeir eru alltaf fyrst og fremst í liði með umhverfinu og hafa tekið virkan þátt í þessu ferðalagi með okkur með því að senda okkur hugmyndir og með því að benda okkur á það sem betur mætti fara.    

Við vitum að við eigum enn langt í land en við höfum tekið mörg skref í rétta átt og erum hvergi nærri hætt. Þessi viðurkenning er okkur enn meiri hvatning til að halda áfram á þessari vegferð, enda ljóst að það er engin framtíð nema með umhverfismálin á oddinum,“ sagði Gréta María þegar hún veitti verðlaununum viðtöku í gær. 

Í valnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sátu Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar, Bryndís Skúladóttir og Sigurður M. Harðarson. Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Stikkorð: Krónan Brim Umhverfisverðlaun