Útgerðarfyrirtækið Brim hf hefur sagt upp 40 manns. Það eru allir skipverjar á frystitogaranum Brimnesi RE 27, sem er 2.848 tonna frystitogari sem gerður er  út  frá Reykjavík.  Brimnesið er nýjasti og stærsti frystitogari Íslendinga og var smíðaður í Noregi árið 2003.

Árið 2013 var aflaverðmæti skipsins 2.680 milljónir króna og laun og launategnd gjöld  voru 1.028 milljónir króna.   Í tilkynningu frá Brim segir að rekstrargrundvöllur frystitogara hafi breyst mikið á undanförnum árum)  en með gríðarlegri hækkun veiðigjalda á síðustu árum hafi rekstrargrundvöllur þessara skipa brostið að mati Brims hf.

„Á síðasta ári voru veiðigjöld  Brimnes um það bil 10% gjald af aflaverðmæti  skipsins.  Þegar aðstöðugjald var lagt niður á Íslandi þá var það um það bil 1,5% af veltu fyrirtækja og þótti hátt þá.   Brim hf. mun leita að verkefnum fyrir skipið erlendis þar sem félagið sér ekki breytingar í vændum hér á landi í rekstrarumhverfi þessara skipa,“ segir í tilkynningu frá Brim.