*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 18. nóvember 2019 12:31

Brim sprengir kvótaþakið

Brim sprengir kvótaþakið með kaupum á Kambi og Grábrók. Fær hálft ár til að koma félaginu undir þakið á ný.

Ritstjórn
Hinrik Kristjánsson, stærsti eigandi Kambs, og meðeigandi hans Hjálmar Þór Kristjánsson, sem á Grábrók að fullu.

Með kaupum Brims á fiskvinnslunni Kamb og útgerðarfélaginu Grábrók, sem samtals fara með 2.850 tonna þorskígildi í krókaaflamarkskerfinu, fer Brim yfir lögbundið kvótaþak í krókaaflamarki. 

Greint er frá þessu á fréttavef Kjarnans en í tilkynningu frá Brim segir að félagið hafi 6 mánuði til að gera ráðstafanir sem koma félaginu undir það þak. Viðskiptin eru háð samþykki hluthafafundar Brims sem boðað hefur verið til þann 12. desember næstkomandi. Sömuleiðis eru kaupin háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum annarra eftirlitsaðila.  

Fiskvinnsla Kambs er í Hafnarfirðinum og eru í meirihlutaeigu Hinriks Kristjánssonar sem rak fiskvinnslu og útgerð á Flateyri undir sama nafni til ársins 2007 þegar aflaheimildir félagsins voru seldar og 120 manns sagt upp störfum. Grábrók er í eigu Hjálmars Þór Kristjánssonar frá Rifi sem er bróðir forstjóra Brims, Guðmundar Kristjánssonar. 

Kaupverðið á Kambi er 2,3 milljarðar króna og verður greitt að hluta með hlutabréfum í Brimi hf. sem eru í eigu félagsins og nema um 1% af heildarhlutafé Brims að verðmæti um 835 milljónir króna. Kaupverð Grábrókar nemur 772 milljónum króna en nettó vaxtaberandi skuldir félaganna eru um 4,5 milljarðar.

Í tilkynningu frá Brim segir að tilgangur kaupanna sé að styrkja Brim sem alhliða fyrirtæki í sjávarútvegi. „Félagið bætir nú við sig þorskveiðiheimildum, tæknivæddum vinnslueiningum og mannauð sem gerir félagið betur í stakk búið til að takast á við erlenda samkeppni í vinnslu sjávarafurða.“