Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,37% í 4,1 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, en hún stendur nú í 3.177,08 stigum.

Bankarnir á markaði lækkuðu allir í viðskiptum dagsins. Arion banki lækkaði um rúmt prósent í 385 milljóna viðskiptum, en gengi bankans stendur í 176 krónum á hlut. Gengið hefur lítið breyst á árinu og hefur samtals hækkað um 0,33% frá áramótum. Gengi Kviku banka lækkaði einnig um rúmt prósent, í 700 milljón króna viðskiptum. Íslandsbanki lækkaði lítillega í veltu upp á hálfan milljarð.

Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan halda áfram að hækka, en gengi bréfa félaganna hefur aldrei verið hærra en nú. Gengi bréfa Brim hækkaði um rúmt prósent í viðskiptum dagsins og stendur í 99 krónum á hlut. Þannig hefur gengið hækkað um 30% á árinu. Gengi bréfa Síldarvinnslunnar hækkaði auk þess um tæpt prósent í viðskiptum dagsins. Gengið stendur í 104 krónum á hlut og hefur hækkað um fimmtung síðastliðinn mánuð.

Bréfin eru áfram græn í fasteignafélögunum á markaði, Eik, Reitum og Regin, en frá áramótum hefur Eik hækkað um rúm 24%, Reitir um 17% og Reginn um tæp 20%.

Icelandair hækkaði lítillega í viðskiptum dagsins, um 0,25% í 200 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins er komið upp í 1,99 krónur á hlut og nálgast því tveggja krónu múrinn.

Sýn lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í dag, um 2,68% í 24 milljón króna viðskiptum. Gengi félagsins stendur í 54,5 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í byrjun nóvember í fyrra. Þannig hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 17% frá áramótum.