Að sögn Egils Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Brimborgar, hefur félagið náð að færa birgðastöðu félagsins niður í að eiga aðeins um 60 bíla á lager af öllum gerðum.

,,Grundvöllurinn að okkar góðu birgðastöðu en Brimborg er núna í heild með 60 nýja bíla á lager af öllum vörumerkjum, er að við vinnum samkvæmt  skráðu verkferli samkvæmt gæðastjórnunarkerfi félagsins sem byggir á alþjóðlega staðlinum ISO 9001:2000. Það þýðir að við fylgjumst mjög reglulega með breytingum í birgðastöðu miðað við pantanir og spár um sölu."

Egill segir strax í lok árs 2007 hafi verið vísbendingar um samdrátt sem þeir tóku alvarlega og drógu úr pöntunum. ,,Þær vísbendingar styrkust síðan í febrúar og mars 2008. Kennitölur samkvæmt verkferlinu sögðu okkur þá að það yrði að bregðast mjög ákveðið við og það gerðum við. Það var t.d. gert í megindráttum á tvennan hátt. Í fyrsta lagi að stoppa pantanir alveg sem var gert í febrúar og setja í gang kraftmikil söluátök í apríl, maí og júní. Því vorum við í nokkuð góðri stöðu þegar bankahrunið varð," sagði Egill.

Hann segir að hrunið hafi í haft í för með sér að enn ákveðnari aðgerðir þurfti. ,,Að þeim var byrjað að vinna í strax í sömu viku og bankarnir hrundu og byggðust að mestu leiti á því að finna kaupendur erlendis því ljóst var að markaðurinn hér heima myndi stoppa. Árangurinn af þeirri vinnu var og er mjög góður og það hefur nú skilað sér í því að félagið er aðeins með 60 nýja bíla á lager.

Kostirnir við þessa góðu birgðastöðu eru margir og þá helsta má nefna lægri fjármagnskostnað, sterkari endursölu fyrir eigendur vörumerkja Brimborgar, engan hafnarkostnað við að geyma bíla og síðast en ekki síst þá er stærsti kosturinn að við erum tilbúin að panta nýja og ferska bíla af nýjustu árgerðum með litlum fyrirvara um leið og fyrstu vísbendingar koma í hús um batnandi tíð. Þar erum við í góðu sambandi við okkar birgja og getum gert þetta á 4-6 vikum," sagði Egill.