Brimborg mun í dag og á næstu vikum afhenda bílaleigunum Dollar, Thrifty og Saga Car Rental 165 nýja bíla, marga af nýjum gerðum sem ekki hafa fengist áður á Íslandi.

Í fréttatilkynningu frá Brimborg kemur fram að um er að ræða 100 Ford bíla ef meðal annars hinum glænýju Ford Fiesta og Ford Kuga gerðum sem hafa fengið góðar móttökur á meginlandinu. Auk þess er um að ræða 30 Mazda bíla, 20 Citroën bóla og 15 visthæfa Volvo bíla.

Alls er um 6 gerðir bíla sem ekki hafa áður komið til landsins og um leið markar salan stærstu einstöku sölu Brimborgar um langt skeið.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að Brimborg dró saman seglin árin 2007 og 2008. Þegar ljóst var að mikið hrun yrði í bílasölu hófst Brimborg handa við að stofna bílaleigur sem gætu tryggt líflínu í gegnum erfiðan róður sem þá var framundan. Sú líflína er sterk í dag og bílaleigureksturinn hefur gengið vel.

Fréttatilkynning Brimborgar í heild sinni:

Brimborg flytur inn 165 bíla fyrir bílaleigur sínar

Brimborg mun í dag og á næstu vikum afhenda bílaleigunum Dollar, Thrifty og Saga Car Rental 165 nýja bíla sem margir hverjir eru af nýjum gerðum sem hafa ekki fengist á landinu áður. Um er að ræða 100 Ford bíla af meðal annars af hinum glænýju Ford Fiesta og Ford Kuga gerðum sem hafa fengið afar góðar móttökur á meginlandinu en einnig Ford Focus og Ford Mondeo sem hafa fengist á landinu um nokkurt skeið, 30 Mazda bíla af gerðinni Mazda2 og nýrri gerð Mazda3, 20 Citroën bíla af gerðunum Citroën C3, Citroën C5 og Citroën Berlingo allt gerðir sem eru að koma til landsins í fyrsta skiptið og síðast en ekki síst 15 visthæfa Volvo bíla af gerðunum Volvo S40 og V50 DRIVe sem nýlega voru kynntir hér á landi.

Alls er um að ræða 6 gerðir bíla sem ekki hafa áður komið til landsins og um leið markar salan stærstu einstöku sölu Brimborgar um langt skeið þar sem fyrirtækið hefur gætt ýtrustu varkárni í rekstri sínum undanfarin misseri.

Sterk líflína

Brimborg var eitt fárra bílaumboða sem sýndi ráðdeild og dró saman seglin tímanlega þegar þenslan stóð sem hæst árin 2007 og 2008. Ljóst var eftir bankahrunið að mikið hrun yrði í bílasölu og var því hafist handa við að stofna bílaleigur sem gætu tryggt líflínu í gegnum þann erfiða róður sem framundan var meðal annars þar sem ljóst var að krónan yrði hagstæð erlendum ferðamönnum. Sú líflína er sterk í dag því bílaleigunum Dollar, Thrifty og Saga Car Rental hefur verið vel tekið af ferðamönnum.

Nýjustu tölur fyrir júnímánuð gefa til kynna að ferðamenn komi hingað til lands í sama mæli og í fyrra og virðast eldgos ekki hafa sett verulegt strik í reikninginn nema rétt á meðan á þeim stóð. Bílaleigureksturinn hefur því gengið vel og styrkt stoðir Brimborgar og er svo komið í dag að samanlagt eru þessar þrjár bílaleigur með um 600 bíla á sínum snærum í útleigu.

Bílarnir munu allir fara beint í bílaleigurnar enda mikil eftirspurn þar. Landsmenn munu því sjá nýjar gerðir af Ford, Citroën, Mazda og Volvo bílum á götunum og hringveginum í sumar og eflaust mun bílaáhugafólk gleðjast yfir því að flóra íslenskra bíla verði með þessari viðbót fjölbreyttari, nútímalegri og visthæfari. Brimborg ræður yfir rekstrarleyfi Dollar og Thrifty á Íslandi en Saga Car Rental er vörumerki Brimborgar.