Aukningin í bílainnflutningur landsmanna það sem af er ári nemur 51,3% og ef fram fer sem heldur þá stefnir í að bílasölumet frá 1987 verði slegið á þessu ári.

Fyrstu 6 mánuði ársins voru fluttir inn 9.686 fólksbílar og 1.218 atvinnubílar. Samanlagt er því búið að flytja inn 10.904 bíla. Á sama tíma í fyrra var búið að flytja inn 7205 ökutæki. Reynslan hefur verið sú að um 55% af innflutningnum skilar sér inn á fyrstu 6 mánuðum ársins og 45% á síðari árshelmingi. Ef sama hlutfall verður í sölunni seinni hluta þessa árs má búast við að fluttir verði inn 19.800 bílar allt árið 2005. Fyrra met er frá 1987 þegar fluttir voru ríflega 18.469 ný ökutæki til Íslands.

Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Brimborg, segist upphaflega hafa reiknað með að niðurstöðutalan yrði á bilinu 16.000 til 16.500 bílar, en reiknar nú með að salan fari að nálgast 17.500 bíla í lok þessa árs.

Söluaukning Brimborgar á þessu ári er nærri 64% á sama tíma og heildarmarkaðurinn hefur vaxið um 51,3%. Það þýðir að markaðshlutdeild fyrirtækisins hefur vaxið og er á fyrri árshelmingi komin í 13,2%.

Ítarlegt viðtal birtist við Egil Jóhannsson í Viðskiptablaðinu í dag.