Í kjölfar óska, frá stjórnmálaflokkum um fjárframlög, hefur Brimborg ákveðið að styrkja alla flokka sem þess óska og bjóða fram í öllum kjördæmum við komandi alþingiskosningar um 300.000 krónur hvern að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

Pólitísk afstaða Brimborgar á sinn uppruna í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins um að bæta Ísland. Sem eitt af 40 stærstu fyrirtækjum landsins er Brimborg mikilvægur og virkur þátttakandi í íslensku þjóðfélagi og vill deila velgengni sinni með því samfélagi sem fyrirtækið er sprottið úr. Pólitísk afstaða Brimborgar er sú að fyrirtækið vill leggja sitt að mörkun til að örva heilbrigð og frjáls skoðanaskipti í þjóðfélaginu og það megi styrkja og efla lýðræðið í landinu.

Brimborg fylgir viðskiptastefnu, sem í víðasta skilningi þess orðs, hefur það að ófrávíkjanlegu markmiði að vera hvort tveggja í senn öruggur vinnustaður og öruggur kaupstaður. Tilgangurinn er að eiga virkan þátt í því að auka lífsgæði Íslendinga. Betri samskipti og sjálfstæði til framkvæmda er þess vegna hluti af því öryggi sem Brimborg vill byggja upp. Þessu markmiði fylgir gegnsæi; krafan um að allar athafnir séu uppi á borðinu.

Við trúum því að í samstarfi við aðra finnum við réttu leiðina að því marki sem gildi okkar vísa á. Í takt við nývottað gæðastjórnunarkerfi Brimborgar eru öll mál sem upp koma afgreidd á faglegum grundvelli. Þessvegna tilkynnum við opinberlega um fjárútlát fyrirtækisins til stjórnmálaflokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum.