Brimborg mun í vor opna nýjan sýningarsal fyrir Polestar rafbíla og á 130 fermetra þaki hans verða lagðar 70 sólarsellur sem munu framleiða allt að 24 þúsund kWst á ári eða sem nemur 50% af orkuþörf sýningarsalarins, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Sýningarsalurinn opnar í húsnæði á lóð Brimborgar við Bíldshöfða. Fram kemur að húsnæðið hafi allt verið endurnýjað með það í huga að spara raforku m.a. með LED ljósum, ljósastýringu og orkunýtnum raftækjum.

„Sólarorkuver Brimborgar verður það stærsta á Íslandi hvort sem mælt er miðað við uppsett afl í kW, fjölda sólarsella, fjölda fermetra sólarsella eða reiknaða raforkuframleiðslu í kWst,“ segir í tilkynningunni.

Sjá einnig: Vindur í segl Brimborgar

Fram kemur að Brimborg ætli að setja upp búnað sem gerir félaginu kleift að selja umframorku til baka inn á almenna dreifikerfi raforku ef á því þyrfti að halda, svo sem á sunnudögum eða opinberum frídögum þegar lítil starfsemi fer fram í húsnæðinu.

„Sólarorkuframleiðsla á Íslandi er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann enda Íslendingar gjarnir á að kvarta yfir sólarleysi. Við ítarlegan undirbúning Brimborgar að uppsetningu sólarorkuversins á þaki Polestar Destination sýningarsalarins kom á óvart hversu mikil raforkuframleiðslan er ef notuð er nýjasta tækni og rétt er staðið að málum,“ segir í tilkynningunni.