Tap Brimborgar helmingaðist milli áranna 2019 og 2020 úr 670 milljónum í 330 milljónir króna. Í ársreikningi félagsins segir að þrátt fyrir 13,8% tekjusamdrátt úr 18,4 milljörðum í 15,3 milljarða króna hafi grunnreksturinn batnað vegna hagræðingaraðgerða.

Þannig lækkaði sölu- og stjórnunarkostnaður félagsins um 849 milljónir eða 22% og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hækkaði úr 508 milljónum í 833 milljónir króna.

Þá sjáist jákvæð merki hvað varðar rekstur á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2021. Með auknum krafti í bólusetningum muni áhrif faraldursins fjara út. Því megi vænta þess að bílaleigumarkaðurinn og markaður fyrir stærri atvinnutæki taki við sér þegar líða tekur á árið.

Félagið býst við 34% tekjuvexti á árinu 2021 og að EBITDA félagsins hækki í um 1,4 milljarða króna.