Stærsti hluthafinn í Eik fasteignafélagi hf., Brimgarðar ehf., hefur óskað eftir því að margfeldiskosning verði viðhöfð á aðalfundi félagsins sem fram fer fimmtudaginn 25. mars 2021. Stjórn félagsins hefur fallist á beiðnina enda barst hún innan frests. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Samkvæmt samþykktum félagsins ber að fallast á tillögu hluthafa um margfeldiskosningu ef hann hefur yfir að ráða minnst 2,5% af útgefnum hlutum í félaginu. Brimgarðar eru stærsti hluthafi félagsins með rúm 15% bréfa. Þar á eftir koma Arion banki með rúmlega einn tíunda bréfa. Þar á eftir fylgja Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi og Almenni lífeyrissjóðurinn með á bilinu átta til níu prósent.

Kosningin mun fara fram með þeim hætti að kosið verður milli einstaklinga. Gildi hvers atkvæðis verður margfaldað með fjölda stjórnarmanna sem kjósa skal, það er fimm, og má hluthafi skipta atkvæðamagni sínu í hverjum þeim hlutföllum sem hann sjálfur kýs, á jafnmarga menn og kjósa skal eða færri. Sé skiptingar ekki getið á atkvæðaseðli verður atkvæðinu skipt jafnt milli þeirra sem atkvæði er greitt.

Sjö eru í framboði til stjórnar. Það eru þau Bjarni Kristján Þorvarðarson, Eyjólfur Árni Rafnsson, Guðrún Bergsteinsdóttir, Hersir Sigurgeirsson, Kristín Friðgeirsdóttir, Már Wolfgang Mixa og Ragnheiður Harðar Harðardóttir. Fjögur fyrstnefndu eiga öll sæti í stjórn félagsins nú og leggur tilnefningarnefnd að þau verði kjörin að nýju. Að auki leggur nefndin til að Kristín verði kjörin en Már og Ragnheiður hlutu ekki náð fyrir augum nefndarinnar.