Lítil flaska af Bríó-bjór kostar 233 krónur í sænskum áfengisverslunum. Í verslunum ÁTVR kostar flaskan hins vegar 329 krónur. Bjórinn er bruggaður af Borg brugghúsi en þróaður í samstarfi við Ölstofu Kormáks og Skjaldar. Borg brugghús er í eigu Ölgerðarinnar. Hann hefur frá síðustu mánaðamótum verið seldur í Systembolaget, áfengisverslunum sænska ríkisins.

Fréttablaðið fjallar um þennan 96 króna verðmun á Bríó-bjórnum í dag. Þar er haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar, að líklega séu áfengisgjöld og aðrir skatta lægri í Svíþjóð en hér og skýri það verðmuninn:

„Ég held að álagningin sé sambærileg á milli landa á heildsölustiginu en eftir því sem ég best veit eru meiri álögur hér en í flestum öðrum löndum. Heilt yfir fara tveir þriðju af útsöluverði bjórs til ríkisins með einum eða öðrum hætti. Það felst í áfengisgjöldum, virðisaukaskatti og álagningu ÁTVR,“ segir Andri og bendir á að dæmin geti verið ýkt. Sem dæmi fari 90% af verði Tindavodka til ríkisins.