British Airways hefur boðið út kaup á nýjum flugvélum og hreyflum vegna langtímaáætlana flugfélagsins um endurnýjun þess hluta flugflota síns, sem sinnir áætlunarflugi á lengri flugleiðum.

Aðilar sem boðin var þátttaka í útboðinu eru flugvélaframleiðendurnir Airbus og Boeing og mótorframleiðendurnir Engine Alliance, General Electric og Rolls Royce auk nokkurra framleiðenda íhluta.

Forstjóri British Airways, Willie Walsh, segir að síðastliðin fjögur ár hafi flugfélagið aukið afköst í starfseminni með skilvirkari notkun flugflotans og til að halda áfram á sömu braut á lengri flugleiðunum sé þörf á nýjum flugvélum. Eftir sem áður skuldbindi stjórnendur sig til að skila hluthöfum áfram ásættanlegum arði af starfseminni.

Samsetning hópsins sem boðið var að taka þátt í útboðinu að þessu sinni hefur að markmiði að auka vöxt og hagnað og skipta út flugvélum á næsta áratug. Umhverfissjónarmið verða lykilatriði við ákvörðun flugfélagsins þegar kemur að nýrri fjárfestingu því betri eldsneytisnýting og minni hljóðmengun og útblástur vega þar þyngst. Fyrstu vélarnar sem skipt verður út eru 20 Boeing 747 og 14 Boeing 767 vélar, sem verða við starfslok sín hjá British Airways um tuttugu og fimm ára gamlar.

Gert er ráð fyrir að á grundvelli útboðsins verði teknar ákvarðanir um ný flugvélakaup á árinu 2007. Þær vélar sem helst eru taldar koma til greina eru af gerðinni Airbus 330A, A350, A380 og Boeing 787, B777 og B747-8.