British Airways hóf formlega endurnýjunarferli á flugflota sínum í gær og er talið að Airbus geti tryggt sér þar mikilvæg viðskipti, segir í frétt Dow Jones.

Ekki hefur verið gefinn upp kostnaður vegna endurnýjunarinnar, en ef allur flotinn væri endurnýjaður gæti kostnaðurinn numið allt að 1.700 milljörðum króna, miðað við listaverð.

Framkvæmdarstjóri Airbus, Willie Walsh, sagði að ómögulegt væri að meta hver kostnaðurinn væri, það færi eftir því hvaða þotur væru pantaðar og benti á að fyrirtækið myndi semja um umtalsverðan afslátt. Byrjað verður á því að endurnýja 20 Boeing 747 þotur og 14 Boeing 767 þotur, en þær eru um 25 ára gamlar.

Sem stendur eru allar þotur British Airways framleiddar af Boeing, en fyrirtækið hefur lýst því yfir að það sé einnig reiðubúið að íhuga Airbus þotur, en fyrstu pantanirnar yrðu á næsta ári. Walsh segir að A380 ofurþotur Airbus myndu henta vel á margar af flugleiðum British Airways, en miklar tafir hafa orðið á afhendingu þeirra og er framleiðsla þeirra nú um 30% yfir kostnaði.

Walsh segir að British Airways sé fyllilega meðvitað um vandræði Airbus og að flugfélagið hafi fulla trú á því að unnið verði úr þeim. Áhyggjur eru nú uppi um að útistandandi pantanir á A380 þotunum verði afturkallaðar vegna afhendingartafanna sem hafa orðið.

British Airways hefur gefið til kynna í nokkurn tíma að til standi að endurnýja flugflotann, en fjárhagur félagsins hefir staðið í vegi þess fram að þessu. Halli lífeyrissjóðs félagsins nemur um 270 milljörðum króna, en Walsh segir að viðræður við fjárhaldsmenn sjóðsins gangi vel og að allir aðilar vilji sjá farsæla lausn á málinu.