Breska flugfélagið British Airways (BA) hefur ákveðið að hefja áætlunarflug milli Gatwick í London og Keflavíkur í mars á næsta ári. Flogið verður daglega fimm sinnum í viku frá og með sunnudegi 26. mars 2006. Flogið verður á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Verð á farmiðum verður frá 22.990 krónum.

Bolli Valgarðsson hjá fjölmiðlaskrifstofu British Airways (GCI Íslandi) segir að Ísland sé einn af fjórum nýjum áfangastöðum BA í Evrópu á næsta ári. Félagið horfi á Ísland og Bretland sem mikilvæga frístundamarkaði fyrir ferðamenn. Félagið vænti þess því að ná ásættanlegum hagnaði af fluginu til Íslands.

Ekki verður opnuð söluskrifstofu á Íslandi, heldur er eingöngu um að ræða farmiðasölu á Netinu. Uppgefið verð á farseðlum felur í sér flug báðar leiðir ásamt sköttum. Þá er ætlun British Airways að starfrækja áætlunarflug milli Gatwick og Keflavíkur allan ársins hring.

?Við erum mjög ánægð með að kynna fyrir Íslendingum þessa nýju flugleið British Airways til og frá Íslandi," segir Sam Heine, viðskiptastjóri BA fyrir Skandinavíu og Ísland. ?Hún færir Íslendingum ekki aðeins möguleika á að ferðast til London á þægilegum tíma heldur einnig möguleika á greiðri tengingu við leiðanet BA um allan heim, sem telur 151 áfangastað í 72 löndum."

Fyrsta brottför verður til Íslands 26. mars frá Gatwick kl. 7.30 að staðartíma og lent verður í Keflavík kl. 9.45. Flogið verður til baka frá Keflavík þremur korterum síðar eða kl. 10.30 og komið til Gatwick kl. 14.35 að staðartíma.

Þessi nýja flugáætlun British Airways milli London og Keflavíkur eykur enn á ferðamöguleika milli Íslands og höfuðborgar Bretlands, þar á meðal á löngum helgarferðum, svo dæmi sé tekið.

Upplýsingar um fargjöld eru að finna á vefsetri British Airways; www.ba.com, frá og með deginum í dag vegna brottfarar frá og með 26. mars 2006 að því er segir í tilkynningu frá félaginu.