Breska flugfélagið British Airways (BA) hefur gefið út að það muni hækka eldsneytisgjald á löngum flugleiðum um 50%. Er þetta gert í kjölfar hækkana á olíu á alþjóðmarkaði sem hefur farið í 60 dollara á tunnu. Elsneytisgjald á styttri leiðum mun einnig hækka. Þetta er önnur hækkunin á eldsneytisgjaldi sem félagið gerir á þessu ári að því er fram kemur á fréttavef Times Online.

BA hefur sagt að olíugjald á miða sem seldir eru í Bretlandi vegna langflugs hækki úr 16 pundum aðra leið í 24 pund eða um 50%. Eldsneytisgjaldið á styttri fugleiðum hækkar úr 6 pundum í 8 pund aðra leið. Munu þessar hækkanir taka gildi á mánudaginn 27. júní.