Hjá British Airways eru menn vongóðir um að samkomulag náist á næstu dögum um aukið samstarf félagsins við American Airlines. Samningaviðræður þess efnis eiga sér nú stað um leið og British Airways á í samrunaviðræðum við spænska flugfélagið Iberia.

British Airways og American Airlines vinna nú þegar saman í One World verkefni sem gengur út á að samnýta flugsæti og aðstöðu á flugvöllum.

Samningnum sem nú er í smíðum er ætlað að hagræða í rekstri British Airways og American Airlines með því að minnka kostnað tæknideilda félaganna, við miðasölu og við stjórnun.

Það er hins vegar ljóst að samkeppnisyfirvöld þurfa að samþykkja samstarfið. Hingað til hafa félögin ekki fengið undanþágu frá samkeppnislögum en yfirmenn British Airways eru bjartsýnir á að breyting kunni að verða þar á nú.

Virgin Atlantic flugfélagið hefur tilkynnt að það muni leggjast gegn öllum tilburðum British Airways og American Airlines til samstarfs, þar sem það myndi skapa félögunum afar sterka markaðsráðandi stöðu í sölu flugferða milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Þetta kemur fram í frétt BBC.