Flugfélögin British Airways (BA) og Malév Hungarian Airlines hafa gert samning um gagnkvæma notkun flugnúmera flugfélaganna í áætlunarflugi sínu á ákveðnum leiðum frá og með 1. nóvember næstkomandi. Mun Malév jafnframt ganga til liðs við Oneworld, samband tiltekinna flugfélaga, í upphafi næsta árs segir í tilkynningu frá BA.

Flugnúmer Malévs verða notuð af BA í þremur daglegum áætlunarferðum milli Heathrowflugvallar í London og Búdapest og flugnúmer BA verða notuð af Malév í tveimur daglegum áætlunarferðum milli Búdapest og Gatwickflugvallar við London. Hættir Malév jafnframt áætlunarflugi til Heathrow.

Þá verða flugnúmer BA notuð af Malév milli Búdapest og Constanta, Larnaca, Sarajevo, Skopje, Timisoara, Tirana og Varna og flugnúmer Malév notuð af BA milli Gatwick og Aberdeen, Edinborgar, Glasgow, Manchester og Newcastle.

Farþegar beggja flugfélaganna njóta vildarpunkta hjá hvoru flugfélaginu sem er og einnig aðgangs að setustofu þeirra á flugvöllunum.

Forstjóri British Airways, Willie Walsh, sagði er samningur BA og Malév var undirritaður: ?Við erum ánægð með að hafa gert samning við framtíðarfélaga okkar í Oneworld, samstarfið við Malév mun koma sér vel fyrir báða aðila og styrkja starfsemi BA á mörkuðum Austur Evrópu.? Í sama streng tók János Gönci, framkvæmdastjóri Malév. ?Við erum hæstánægð með samninginn við British Airways sem mun styrkja vöruframboð okkar og ferðamöguleika viðskiptavina okkar. Þá styrkir samningurinn ennfremur markaðsstöðu okkar, bæði á flugleiðinni Búdapest - London og einnig í löndunum í Austur Evrópu.

Oneworld er samband flugfélaganna British Airways, Aer Lingus, American Airlines, Cathay Pacific, Finnair, Iberia, LAN og Qantas. Sameiginlega starfrækja þessi flugfélög yfir 400 setustofur á flugvöllum um allan heim sem farþegar á viðskiptafarrými njóta aðgangs að. Auk þess safna farþegar flugfélaganna vildarpunktum frá öllum flugfélögunum.