Breska flugfélagið British Airways tilkynnti í dag að félagið ætti í samningaviðræðum við ástralska flugfélagið Qantas Airways um mögulega sameiningu félaganna.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC en talsmaður British Airways ítrekar þó að ekkert sé fyrirfram gefið um niðurstöðu viðræðnanna.

Í tilkynningu frá British Airways vegna malsins kemur fram að verði af sameiningu munu félögin samt sem áður áfram starfa bæði í Bretlandi og í Ástralíu auk þess að vera skráð í kauphöllum í báðum löndum.

British Airways áttu 18,25% hlut í Qantas á árunum 1993 – 2004 þegar félagið seldi hluta sinn til að greiða upp aðrar skuldir.

Áströlsk yfirvöld kynntu í vikunni breytingar á reglugerðum um erlendar fjárfestingar sem kunna að auðvelda mögulegan samruna flugfélaganna.

Þá British Airways einnig í viðræðum við spænska flugfélagið Iberia um mögulegan samruna en þær viðræður hafa nú staðið yfir í nokkrar vikur.

British Airways bíður nú ákvörðunar Evrópusambandsins vegna samstarfssamnings síns við bandaríska flugfélagið American Airlines, um viðmið fargjalda, flugleggja og mögulega samnýtingu á flugflota félaganna.