Breska fjárfestingafélagið International Airline Group (IAG), sem er móðurfélag breska flugfélagsins British Airways hefur undirritað samkomulag við evrópska flugvélaframleiðandann Airbus um kaup á 18 Airbus A350-1000 vélum og kauprétt á 18 vélum til viðbótar. Listaverð pöntunarinnar er um sex milljarðar Bandaríkjadala.

IAG er jafnframt eigandi spænska flugfélagsins Iberia en samkvæmt samkomulaginu hefur félagið rétt á því að færa kauprétti á vélunum að einhverju leyti yfir á Iberia eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Airbus.

Airbus A350 vélinni er ætlað að leysa Boeing 747 breiðþotur félagsins af hólmi. Þannig er áætlað að losa um 30 Beoing 747 vélar úr flota félagsins fram til ársins 2023, en félagið rekur í dag 55 slíkar vélar, en ekkert flugfélag í heimi á jafn margar júmbóþotur.

IAG á nú þegar pantaðar 12 Airbus A380 vélar fyrir hönd British Airways, en sú fyrsta verður afhent félaginu nú í sumar.

Airbus A350-1000 vélin er sú stærsta í A350XWB línunni og getur setið allt að 350 farþega. Minni vélarnar, A350-900 og A350-800 munu sitja um 315 og 270 farþega. Stefnt er að því að reynslufljúga fyrsta eintakinu af A350 vélinni nú í sumar en áætlanir gera ráð fyrir því að hún verði komin í almenna notkun á næsta ári.