Breska flugfélagið British Airways var í gær dæmt til að greiða 300 milljóna Bandaríkjadala sekt fyrir ólöglegt verðsamráð um eldsneytisgjald við flugfélagið Virgin Airways samkvæmt úrskurði bandarísks alríkisdómara. Áður hafði breska flugfélagið einnig verið dæmt fyrir sama brot af breskum samkeppnisyfirvöldum og gert að greiða 121,5 milljónir punda.

Það er hugsanlegt að frekari sektir bíði British Airways, en framkvæmdastjórn ESB er með málið til rannsóknar. Virgin Airways slapp hins vegar við fjársektir sökum þess að félagið lét bresk yfirvöld vita af málinu og veitti nauðsynlegar upplýsingar.