Bandaríska ríkisstjórnin hefur sektað breska flugfélagið British Airways um 1,1 milljón dali fyrir að endurgreiða ekki viðskiptavinum sínum fargjöld aflýstra flugferða. Bandaríska samgönguráðuneytið segir að flugfélagið hafi ekki veitt farþegum tímabæra endurgreiðslu þegar flug voru aflýst á meðan á heimsfaraldri stóð.

Ráðuneytið segir að meira en 1.200 kvartanir hafa borist vegna málsins en British Airways neitar allri sök í málinu og segist hafa farið eftir öllum lögum og reglum.

Í tilkynningu segir að frá mars til nóvember árið 2020 hafi vefsíða British Airways bent farþegum á að hringja beint í flugfélagið til að fá endurgreiðslu. Mikið álag hafi hins vegar verið á símalínum British Airways og náði flugfélagið ekki að manna eftirspurnina í heimsfaraldrinum. Það var heldur engin leið fyrir viðskiptavini að biðja um endurgreiðslu í gegnum vefsíðu fyrirtækisins.

Samgönguráðuneytið hefur að auki sakað British Airways um misvísandi upplýsingar á vefsíðu sinni þar sem viðskiptavinir voru í raun að biðja um inneignarnótu í stað endurgreiðslu án þess að vita af því.

Rúmlega fimm milljónir farþega hafa fengið endurgreitt frá flugfélaginu frá því að heimsfaraldurinn byrjaði.