Kostnaður við tafir og ringulreið í kringum Landgang 5 (Terminal 5) á Heathrow hafa kostað British Airways um 16 milljón punda eða því sem samsvarar tæplega 2,4 milljörðum íslenskra króna.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC í dag en landgangurinn sem um ræðir er orðinn þekktur fyrir vandræðagang og tafir eftir að hann var tekinn í notkun í síðustu viku.

British Airways hefur hætt við um um 300 flug vegna vandræðagangs tengdum Landgangi 5. Samkvæmt fréttavef BBC segja sérfræðingar að opnun hans hafi ekki verið undirbúin nógu vel en mikið var óklárað þegar landgangurinn var tekinn í notkun.

Þannig var til að mynda ekki búið að segja upp brautir fyrir farangurstöskur, ekki búið að tengja tölvur við brottfarahlið við tölvukerfi Heathrow, ekki búið að klára salernisaðstöður fyrir farþegar og í einstaka tilvikum var ekki búið að merkja brottfarahlið skilmerkilega.

Helsta vandamálið hefur þó verið meðferð farangurs en erfiðlega gengur að koma skipulagi á farangur og eru dæmi um að töskur hafi farið í miklu magni í vitlausar vélar, „ef þær hafa á annað borð komist um borð,“ segir á fréttavef BBC.

Í tilkynningu frá British Airways í dag kemur fram að unnið sé hratt í því að klára það sem eftir stendur á landganginum. Þá mun félagið færa lengri flug í landganginn þann 30. apríl næstkomandi en áætlað er að hann muni framvegis þjóna helst farþegum sem eru á leið í lengri flug.   Tæplega 3% fækkun varð á fjölda flugfarþega hjá British Airways í mars og segir félagið það að miklu leyti tengjast vandræðum tengdum hinum umrædda landgangi.