British Ariways (BA) staðfesti í gær að það hyggðist taka þátt í fyrirhuguðu yfirtökutilboði í spænska flugfélagið Iberia með hópi fyrirtækja sem bandaríski einkafjárfestingarsjóðurinn TPG Capital fer fyrir. Sérfræðingar telja líklegt að tilboð TPG-hópsins verði að minnsta kosti um 3,6 evrur á hvern hlut, eða samtals um 3,5 milljarðar evra. BA ítrekaði þó fyrri afstöðu sína í síðustu viku um það myndi ekki leggja til neitt fjármagn í fyrirhugað tilboð í Iberia, heldur yrði hluthöfum þess boðin hlutabréf í British Airways.

Í tilkynningu sem breska lággjaldaflugfélagið sendi frá sér í gær kemur fram að auk TPG og BA, samanstandi hópurinn af þremur spænskum félögum; Vista Capital, Inversiones Ibersuizas og Quercus Equity. Markmið hópsins næstu daga og vikur er einfalt: Að kanna alla möguleika á yfirtökutilboði í Iberia, fjórða stærsta flugfélagi í Evrópu.

Þrátt fyrir að TPG-hópurinn hafi lýst yfir vilja sínum á því að leggja fram tilboð í Iberia er enn of snemmt að fullyrða hvort af yfirtökutilboðinu verður. Hins vegar hafa félögin stigið stórt skref í þá veru, en með því að vera búin að ákveða samsetningu fyrirtækjahópsins getur hópurinn hafið áreiðanleikakönnun á Iberia og í framhaldi af því lagt fram hugsanlegt yfirtökutilboð.

APAX skilið útundan
Það skipti TPG miklu máli að fá British Airways í lið með sér. BA er eigandi að tíu prósent hlut í Iberia og hefur auk þess þess fyrsta rétt á því að hafna öllum tilboðum sem berast í félagið sem eru gerð í meira en þrjátíu prósent af hlutabréfum Iberia. BA hefur einnig á að skipa tveimur fulltrúm í stjórn Iberia. Sú staðreynd að BA hyggst starfa með TPG-hópnum hefur því minnkað líkurnar á því að önnur félög muni bætast við síðar og keppa við hópinn um Iberia, en í lok aprílmánaðar var uppi orðrómur um að BA ætlaði að slást í hóp með APAX, breskum einkafjárfestingarsjóði. Hins vegar hefur slíkt nú verið slegið út af borðinu. Heimildarmenn Dow Jones fréttaveitunnar segja að APAX hafi tekið þá ákvörðun að segja sig frá slagnum um Iberia. Að mati sumra er talið sennilegt að BA hafi gert það að skilyrði fyrir samstarfi við TPG-hópinn að APAX yrði skilið útundan.

Iberia tilkynnti í lok marsmánaðar að TPG Capital hefði gert bráðabirgðatilboð í flugfélagið og í kjölfar þess fór TPG leita eftir samstarfsaðilum. Það er nauðsynlegt fyrir BA og TPG að hafa þrjú spænsk félög í lið með sér til að leggja fram yfirtökutilboð í Iberia. Þau munu að minnsta kosti eiga 51% hlut í Iberia ef yfirtaka hópsins gengur eftir, en með því móti er tryggt að þau geti notið ávinnings af þeim flugsamningi sem er í gildi milli Spánar og Suður-Ameríku. Samkvæmt þeim samningi verður spænskt flugfélag sem flýgur til Suður-Ameríku að vera í meirihlutaeigu spænskra ríkisborgara.

Opnar fleiri dyr fyrir BA
Í kjölfar þess að Evrópusambandið (ESB) og Bandaríkin gerðu nýlega með sér samkomulag um aukið frjálsræði í flugi yfir Atlantsála (e. Open Skies Agreement) var fastlega búist við því að sameining flugfélaga þvert á landamæri aðildarríkja ESB myndi færast í aukana. Sérfræðingar segja að fyrirhugað tilboð einkafjárfestingarsjóðanna í Iberia sé til marks um aukin umsvif slíkra sjóða á evrópska flugiðnaðinum og muni líkast til verða til að flýta fyrir nauðsynlegri uppstokkun á rekstri og eignarhaldi flugfélaga í álfunni.

Í frétt Financial Times segir að British Airways hafi hingað til farið fremur varfærnum skrefum í þá veru að yfirtaka önnur flugfélög í Evrópu, samanborið við mörg önnur samkeppnisfyrirtæki þess. Stutt er síðan að Air France og Lufthansa yfirtóku hollenska flugfélagið KLM og Swiss. Ef áform BA að yfirtaka Iberia ásamt TPG-hópnum takast, telja sérfræðingar um flugiðnaðinn að félaginu muni reynast auðveldara á næstu árum að taka enn frekari skref í þá átt að útvíkka starfsemi sína í Evrópu.