Söluaukning er hjá Costco vegna kórórnuveirunnar. Þetta kom fram í uppgjöri samstæðu Costco í gær fyrir febrúarmánuð . Salan í Bandaríkjunum jókst um 11,6% í febrúar milli ára, 10,4% í Kanada og 13,5% utan Kanada og Bandaríkjanna. Þá jókst vefverslun samstæðunnar um 22,7%. Í tölunum er horft fram hjá breytingum á bensínverði og gengissveiflum.

Costco segir að um þrjú prósentustig af söluaukningunni megi skýra vegna áhyggna viðskiptavina af kórónuveirunni.

„Svolítið brjáluð“ sala

Viðskiptavinir hafa hamstrað þurrvöru, hreingerningarvörur, vatn, pappír og sótthreinsiefni að sögn Richard Galanti, fjármálastjóra Costco. Félagið hyggist setja þak á hve mikið megi kaupa af vissum vörum eftir svæðum. Vöruhúsin hefðu átt í vandræðum með að halda í við eftirspurn viðskiptavina. Aukningin í eftirspurn hefði verið „svolítið brjáluð“ að sögn Galanti.

Hann sagði vel fylgst með þróuninni með öryggi viðskiptavina og starfsmanna í huga. Þá muni félagið þurrka sérstaklega af kerrum og setja upp sótthreinsiþurrkur á vissum stöðum á ákveðnum svæðum.

Þak hafi verið sett á fjölda viðskiptavina í verslun félagsins í Sjanghæ og vöruhúsum í Suður-Kóreu hefði verið lokað í nokkra daga vegna útbreiðslu veirunnar. Þá hafi framleiðsla á vissum vörum ekki hafist á ný í Kína eftir kínverska nýja árið vegna útbreiðslu veirunnar.

Hins vegar hafi eftirspurn hjá ferðaskrifstofur Costco dregist töluvert saman. Margir hafi afbókað utanlandsferðir og ferðir á skemmtiferðaskip. „Ég held að það komi engum á óvart,“ sagði Galanti á fjárfestakynningu Costco í gær.

Tekjur Costco á heimsvísu námu 39 milljörðum dollara á 12 vikna tímabili sem lauk 16. febrúar og hagnaðist um 931 milljón dollara.

Costco rekur 785 vöruhús. Þar af eru 546 í Bandaríkjunum og Púertó Ríkó, 100 í Kanada, 39 í Mexíkó, eitt á Íslandi og eitt í Kína.