Í mínum huga sýnir þetta að Costco er komið til að vera,“ segir Már Wolfgang Mixa, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans Í Reykjavík, um afkomu Costco hér á landi.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Costco á Íslandi velti félagið 21,2 milljörðum króna á síðasta rekstrarári sem nær frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2018. „Þetta er brjálæðisleg velta,“ segir Már.

Hann var einn höfunda skýrslu um áhrif Costco á Íslandi sem ráðgjafafyrirtækið Zenter vann árið 2016. Í skýrslunni var því spáð að velta Costco á Íslandi yrði um 22 milljarðar á ári sem er ansi nærri endanlegri niðurstöðu upp á 21 milljarðs króna veltu. Már segir að þegar skýrslan var kynnt hafi almennt verið talið að Zenter hafi ofmetið væntanleg áhrif Costco hér á landi. Reyndin hafi verið að skýrslan hafi fremur vanmetið áhrif Costco en hitt.

Costco skilaði rekstrarhagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) upp á 316 milljónir króna á síðasta rekstrarári en rekstrartapi að teknu tillit til afskrifta (EBIT) upp á 47 milljónir króna. „Ég hefði búist við að afkoman á öðru ári væri aðeins betri og þeir væru komnir með rekstrarhagnað,“ segir Már.

„Það verður áhugavert að sjá hver afkoman verður á næsta rekstrarári. Það kæmi mér á óvart ef þeir væru ekki komnir með rekstrarhagnað.“ Rekstrartap fyrra reikningsárs nam 635 milljónum króna, en hafa ber í huga að því reikningsári lauk í lok ágúst 2017 þegar verslun Costco hafði einungis verið opin í ríflega þrjá mánuði. Sé horft á afkomuna í heild skilaði Costco hagnaði upp á 139 milljónir króna á síðasta reikningsári en það skýrist helst af gengishagnaði upp á 185 milljónir króna og jákvæðum fjármagnsgjöldum sem námu 41 milljón króna.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .