Mjög góð veiði var í Skjálfandafljóti í sumar, raunar svo mikil að þeir sem þekkja vel til eru undrandi á laxgengdinni. "Þetta er einhver brjálæðisleg laxgengd sem maður getur ekki skýrt," segir Vésteinn Garðarsson á Vaði II í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í gær en þar er fjallað ítarlegar um málið. Vésteinn er formaður A-deildar veiðifélags Skjálfandafljóts. Alls veiddust 1147 laxar í Skjálfandafljóti þetta sumar samkvæmt bráðabirgðatölum Veiðimálastofnunar en veitt er í Skjálfandafljóti á tveimur svæðum - efra og neðra svæði og í Djúpá. Í fyrra veiddust 346 laxar í Skjálfandafljóti.

Það er ekki að ástæðulausu sem Vésteinn Garðarsson er undrandi á allri veiðinni í Skjálfandafljóti í sumar. Hann hefur handleikið lax úr fljótinu frá ungaaldri og þekkir öll hans sérkenni, en í sumar tók að bera á laxi í fljótinu með útliti sem hefur ekki sést á þessum slóðum. Vésteinn segir 60-70% aflans hafa verið lax sem hann hafi ekki séð áður í Skjálfandafljóti. Laxarnir voru allir eins á að líta og allir á bilinu 2,2-3,2 kíló. Laxarnir voru bjartari en hinn hefðbundni stofn Skjálfandafljóts og nefið var auk þess með öðru lagi.

Vésteinn segir ljóst að ekki sé um eldislax á ferðinni, hann sé yfirleitt uggaskemmdur, þessir laxar hafi ekki verið uggaskemmdir. Um tíma héldu menn að torfur af Kyrrahafslaxi hefðu gengið upp Skjálfandafljót en svo mun þó ekki vera. Hreistursýni hafa verið tekin af laxinum og send til Veiðimálastofnunar, en þau sýna að laxinn hefur verið um 2-3 ár í ferskvatni áður en hann gekk í sjó og síðan upp í Skjálfandafljót. Vanalega er laxinn úr Skjálfandafljóti fjögur ár í ferskvatni áður en hann gengur til hafs og segir Vésteinn að ein tilgáta manna skýri þetta með betra árferði í fljótinu, laxinn dvelji þar skemur vegna betri vaxtarskilyrða - það skýri þó ekki breyttan lit laxanna né heldur breytt útlit. Vésteinn segir að menn velti því fyrir sér hvort nýr stofn sé að leggja fljótið undir sig en of snemmt sé að segja til um það.