Hlutabréfaverð sænska tölvuleikjafyrirtækisins Thunderful Group, þar sem Brjánn Sigurgeirsson er forstjóri, hækkuðu um 50% á fyrsta viðskiptadegi þegar félagið var skráð á First North Premier Kauphöllina í Svíþjóð þann 7. desember. Markaðsvirði félagsins er nú ríflega 6 milljarðar sænskra króna, sem samsvarar um 94 milljörðum íslenskra króna, og hafa bréfin hækkað um 78% frá skráningu.

Thunderful Group er með höfuðstöðvar í Gautaborg í Svíþjóð. Það varð til árið 2019 við sameiningu nokkurra leikjafyrirtækja og Bergsala, umboðsaðila Nintendo á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum og varð Brjánn forstjóri félagsins. Meðal þeirra var leikjafyrirtækið Image & Form sem Brjánn stofnaði árið 1997.

Fram til ársins 2009 einbeitti Image & Form sér helst að þróun á námstengdum leikjum og hugbúnaði. Það ár gaf félagið hins vegar út leikinn SteamWorld, sem segja má að hafi slegið í gegn og hefur SteamWorld leikjaserían selst í alls um fjórum milljónum eintaka.

Brjánn hefur verið búsettur í Svíþjóð mestallt líf sitt. Hann fæddist þar í landi árið 1967 en foreldrar hans voru þar í námi. Brjánn lærði grafíska hönnun í San Francisco og bjó og starfaði í Tókýó í Japan áður en hann stofnaði Image & Form. Samstarf Brjáns og Bergsala hafði staðið yfir í meira en áratug. Brjánn setti sig í samband við stjórnendur Bergsala eftir að hafa lesið blaðagrein um félagið sem endaði með því að Bergsala keypti 50% hlut í Image & Form árið 2011.

Stefna á mikinn vöxt í leikjaframleiðslu

Thunderful Group velti sem samsvarar um 32 milljörðum íslenskra króna árið 2019. Umfangsmesti hlutinn í starfsemi Thunderful Group er sala á vörum Nintendo. Leikjahluti félagsins er hins vegar í miklum vexti og hefur það keypt nokkur leikjafyrirtæki að undanförnu.

Samhliða skráningunni á markað aflaði félagið andvirði um 11,5 milljarða íslenskra króna í nýtt hlutafé. Í útboðslýsingunni kemur fram að félagið hyggst nýta 60% af fjármagninu, um 7 milljarða króna. leikjahluta fyrirtækisins. Í október og nóvember keypti Thunderful tvö leikjafyrirtæki, hið sænska Station Interactive og breska fyrirtækið Coatsink en það greiddi um fjóra milljarða íslenskra króna fyrir hið síðarnefnda.

Um 200 manns starfa hjá félaginu en þar af ríflega 100 við leikjaframleiðslu.

Hlutur Brjáns 6 milljarða virði

Í útboðinu seldi Brjánn sjálfur hluti fyrir um 850 milljónir íslenskra króna og á eftir útboðið 6,2% hlut í félaginu sem metinn er á um 6 milljarða íslenskra króna. Fjárfestum sem seldu bréf í útboðinu er óheimilt að selja þau innan þriggja ára.

Yfirmaður tölvuleikjasviðs Thunderful er Svíinn Klaus Lyngeled, sem á jafn stóran hlut í félaginu og Brjánn eftir að hafa sameinað sitt eigið leikjafyrirtæki, Zoink, við Image & Form árið 2017. Bergsala átti 50% hlut í báðum félögum fyrir sameininguna. Þeir hafa lýst því í viðtölum að kveikjan að sameiningunni hafi verið vinátta þeirra. Þrátt fyrir að eiga að heita samkeppnisaðilar voru þeir farnir að hittast reglulega á kaffihúsum að ræða helstu áskoranir í rekstrinum sem lauk með því að fyrirtækin sameinuðust.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um spillingarvísitölu Transparency International, en öfugt við fullyrðingar Íslandsdeildar samtakanna mælist ekki aukning í spillingu hér á landi og hefur ekki gert um árabil.
  • Umsvifamikill fjárfestir hefur fest kaup á sögufrægri fasteign af öðrum umsvifamiklum fjárfesti.
  • Fjallað er um sölu á umdeildu fasteignasafni sem nýtt hefur verið í íbúðaleigu.
  • Eigendur þriggja félaga deildu við ríkið fyrir dómi um hvort skuldabréfaútgáfa þeirra hafi talist eðlileg og í rekstrarlegum tilgangi.
  • Ítarlegt viðtal við Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi.
  • Fjallað um nýja vöru hugbúnaðarfyrirtækisins Kóða sem auðveldar utanumhald hlutafélagaskrár.
  • Óðinn fjallar um forrystu Sjálfstæðisflokksins.
  • Hrafnarnir eru á sínum stað og Týr fjallar um ráðningarstyrki ríkisins.