Nýr rekstrarstjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA, Guðmundir Stefán Maríusson, starfaði í 27 ár sem fjármálastjóri hjá Íslensku auglýsingastofunni en síðustu tíu mánuðina hefur hann verið í ýmsum verkefnum, fyrir Pipar\TBWA og ABS fjölmiðlahús.

„Ég kem til með að vera með puttana alls staðar þar sem kemur að rekstri, en ég verð ekki að stýra teiknifólkinu,“ segir Guðmundur en um nýja stöðu er að ræða hjá fyrirtækinu.

„Með skóla þá vann ég bæði hjá Skeljungi og á sjó, á litlum og stórum togara og svo eftir að ég kláraði viðskiptafræðina fór ég til Ástralíu þar sem ég vann hjá hraðflutningafyrirtækinu TNT. Ég kom svo heim á skattlausa árinu 1987 og reyndi því að vera þar sem tekjumöguleikarnir voru mestir og tók loðnuvertíð, en síðan fór ég í ríkisbókhald í þrjú ár.“

Guðmundur er giftur Guðnýju Pétursdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau þrjú börn, á aldrinum 34, 24 og 18 ára, og tvö barnabörn, sjö og þriggja ára. „Það er alltaf gaman að passa barnabörnin, þau gefa manni mikið með sínum spurningum og sinni speki, en það er alltaf gaman að skila þeim líka,“ segir Guðmundur sem stundar útivist í frítíma sínum og hefur náð meiri hæðum í því en flestir.

„Ég var bara í síðustu aðlöguninni á leiðinni upp í þriðju grunnbúðir á Evrest eftir sex vikna undirbúning á svæðinu þegar ég fór að finna fyrir því að eitthvað væri að, svo í kringum 7 þúsund metra hæð þá stoppa ég bara og segist vera hættur. Leiðsögumaðurinn á eftir mér varð alveg hissa því hann sagðist hafa tekið eftir því að ég væri svo öruggur á broddunum og með jafnan hraða, en ég svaraði að ég væri að farast í brjóstkassanum og rölti einn niður. Síðar kom í ljós að ég var kominn með sýkingu í hjartavöðvann og of mikinn vökva í brjóstholið.“

Guðmundur lét þó þetta atvik frá árinu 2013 ekkert stoppa sig en hann hefur klifið hæstu tinda Suður-Ameríku, Rússlands og Afríku.

„Ætli ég sé ekki búinn að vera í þessu brölti í 17 ár af einhverju viti, en ég fór fyrst upp á Kilimanjaro árið 2003, og stefni þangað í fjórða sinn á næsta ári, þá með yngstu dóttur minni. Þetta er hæsta frístandandi fjall heims og mjög skemmtileg ganga enda farið í gegnum nokkur gróðurbelti. Síðustu ár hef ég farið tvisvar til Marokkó, og svo er ég búinn að þvælast um allt Ísland og mörgum sinnum farið á Hvannadalshnúkinn,“ segir Guðmundur sem áður þótti nokkuð liðtækur fótbolta- og borðtennisspilari.

„Ég segi stundum að ég sé eini Íslendingurinn sem hef spilað á móti landsliði Grænlands í bæði borðtennis, þar sem ég var í íslenska landsliðinu, og í fótbolta, en þar vorum við nokkrir strákar úr KR og Fram sem tókum æfingaleik við landslið Grænlendinga.“