Bros auglýsingavörur hafa nú breikkað starfssvið sitt og aukið við þjónustuliðina, með kaupum á Snara, einu elsta auglýsingavörufyrirtæki landsins. Rekstur fyrirtækjanna verður sameinaður á einum stað í Síðumúla 33. Með kaupunum á Snara styrkir Bros stoðir sínar á auglýsingavörumarkaði og bætir um leið við þjónustuna og úrvalið sem fyrirtækjum býðst þegar þau huga að því að merkja gjafavörur eins og segir í tilkynningu frá félaginu.

Þá verður smásöluverslunum, félögum og samtökum veitt aukin þjónusta eftir kaupin, en Snari hefur um árabil verið leiðandi í sölu á latex- og álblöðrum, handfánum og rellum. Sá varningur fellur vel að þeirri starfsemi sem fyrir er hjá Brosi, enda í þeim flokki sem mætti kalla ?brosvörur? og hæfa við margvíslegar kynningar, veisluhöld og til hátíðarbrigða, eins og á 17. júní.

Eftir kaupin mun Bros einnig annast dreifingu á helíum frá Ísaga og leigja út bæði helíumkúta í ýmsum stærðum og loftdælur til að blása upp blöðrur.

Snari hefur þjónað fyrirtækjum og einstaklingum jafnt á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Starfsmenn Snara búa að mikilli reynslu sem mun styrkja Bros í áframhaldandi viðleytni til að bæta og auka þjónustuna. Stuttur afgreiðslutími, vönduð vinnubrögð og hagstætt verð hafa verið áhersluþættir beggja fyrirtækjanna og starfsemin fellur því vel saman segir í tilkynningunni.

Bros - auglýsingarvörur sérhæfir sig í sölu- og merkingum á margvíslegum auglýsingavörum. Bros selur og merkir nánast allan fatnað og auglýsingavörur sem fyrirtæki og félög nota í kynningarstarfi. Bros er til húsa í Síðumúla 33 og sem fyrr segir flytur Snari þangað eftir kaupin. Eftir kaupin verða starfsmenn alls 28.